Hugmyndafræði

 

Grindarbotnsvöðvar

Grindarbotnsvöðvar líkjast hengirúmi sem liggur frá lífbeini að framan aftur að rófubeini. Þeir umlykja þvagrás, leggöng og endaþarm. Grindarbotnsvöðvarnir eru mikilvægir fyrir líkamsstöðu okkar, þvagheldni og stuðning við grindarholslíffæri. Einnig aðstoða þeir við stuðning við mjóbak og mjaðmagrind við hreyfingu. Helstu einkenni veikra grindarbotnsvöðva eftir fæðingu er áreynsluþvagleki en einnig þekkist þreyta í grindarbotni, sig á grindarholslíffærum, loftleki og jafnvel hægðarleki.

 

Líkamsstaða

Á meðgöngu breytist líkamsstaða kvenna vegna breytinga á þungamiðju líkamans. Hormónabreytingar hafa mýkjandi áhrif á bandvef á sama tíma og innviðir grindarhols þyngjast með vaxandi barni. Því reynir mjög á burðargetu grindarbotnsvöðvanna og bandvefsins. Vegna þessara gífurlegu breytinga er mjög mikilvægt að leiðrétta vöðvaójafnvægi og þjálfa rétta vöðva til að koma á góðri líkamsstöðu.

Öndun

Þindin er hluti af djúpvöðvakerfi líkamans sem spilar hlutverk í líkamsstöðu og stöðuleika um miðju líkamans. Aðalhlutverk þindarinnar er þó að stjórna öndun. Þindin liggur samsíða grindarbotninum og skiptir gríðarlegu máli fyrir starfsemi grindarbotns og kviðvöðva.

Kviðvöðvar

Á meðgöngu teygist á kviðvöðvum móður og bandvefur undir kviðvöðvum slaknar. Eftir fæðingu gengur bilið milli kviðvöðvanna saman hjá flestum konum á nokkrum mánuðum. Ef bilið gengur ekki til baka er talað um Magálsvöðvagliðnun eða diastasis recti abdominis (DRA). Vegna minnkaðs styrks kviðvöðva við DRA getur það leitt til breyttrar líkmasstöðu og valdið auknu álagi á mjóbak og mjaðmagrind með meðfylgjandi verkjum.