febrúar 08, 2023
Breytingaskeiðið er tími sem allar konur ganga í gegnum um ævina og verður vegna stigvaxandi minnkunar á (og sveiflum í) framleiðslu Estrogen-hormónsins. Eins krefjandi og þessi tími getur verið er hægt að gera margt til að auka lífsgæði og öðlast betri líðan; þar á meðal hreyfing!
Löngun og drifkraftur til að hreyfa sig og stunda einhvers konar líkamsrækt getur minnkað og jafnvel horfið algjörlega á þessu tímabili. Einkenni eins og þreyta, liðverkir, hitakóf, kvíði og fleira virka ekki mjög hvetjandi á þessu sviði.
Hreyfing er góð fyrir andlega og líkamlega heilsu og getur hjálpað þér að draga úr áhrifum þessara einkenna.
Líkamsrækt eykur blóðflæði og hjartslátt sem veldur því að líkaminn losar endorfín, en það býr til vellíðunartilfinningu. Auk þess er mjög mikilvægt fyrir beinheilsu að gera styrktaræfingar en minnkun á estrogeni í líkamanum eykur líkur á beinþynningu hjá konum. Bein eru lifandi vefur sem styrkist þegar við setjum á þau álag og notum þau.
Regluleg hreyfing minnkar síðan líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og elliglöpum, svo það er til mikils að vinna!
Hvað þarf ég að hreyfa mig mikið? Hversu mikið er nóg?
Mælt er með að ná 30 mínútum af hreyfingu með meðalákefð og styrktaræfingum að minnsta kosti 2x í viku. Meðalákefð er þegar þú mæðist aðeins en getur samt haldið uppi samræðum, til dæmis við röska göngu eða hjólreiðar.
Góðar þungaburðaræfingar fyrir beinin eru til dæmis: Rösk ganga, dans og þolfimiæfingar.
Það er mikilvægt að finna sér eitthvað sem vekur áhuga og tilhlökkun, jafnvel með félagsskap og í fastri rútínu. Þannig er þetta auðveldast.
Það þarf ekki að fara í líkamsræktarstöð til að gera styrktaræfingar eða bæta líðan og beinheilsu á breytingaskeiði (eða eftir tíðahvörf). Það er hægt að gera allt heima og/eða undir berum himni. Það þarf ekki að taka langan tíma, að ganga til vinnu í korter og aftur heim seinnipartinn myndi til dæmis fylla upp í ráðlagðan dagskammt.
Einfalt er oft best og það er mikilvægt að sýna sér mildi :)
----
Í netnámskeiðinu okkar Betri líðan á breytingaskeiði færð þú eilífðaraðgang að frekari fræðslu, æfingabanka fyrir öll getustig (með og án búnaðs) sem þú getur haft til hliðsjónar og aðstoð/utanumhald til að koma þér af stað í einhvers konar hreyfirútínu.
Unnið með bókina Búðu þig undir breytingaskeiðið og tíðahvörf eftir Lousie Newson til hliðsjónar.
© 2024 Móðurmáttur.