apríl 12, 2021
Streita ein og sér veldur ekki verkjum en getur aukið á þá og viðhaldið þeim. Algengt er að konur sem þjást af verkjum frá grindarbotni, grindarholi eða mjaðmagrind eigi erfitt með að létta á verkjunum og oft fá þær lítil svör um hvað er að angra þær. Veldur þetta áhyggjum og aukinni streitu um að ástandi muni mögulega aldrei batna.
Verkir frá grindarbotni og grindarholi geta verið hvimleiðir og skert lífsgæði en í flestum tilfellum er hægt að hafa áhrif á verkina og auka lífsgæðin, í mörgum tilfellum ná konur á endanum góðum tökum á ástandinu.
Auk sjúkraþjálfunar, liðkandi og styrkjandi æfinga, geta núvitundaræfingar hjálpað konum að minnka streituna í líkamanum og þannig náð slökun í grindarbotn og mjaðmagrindarvöðva.
Mikilvægt er að borða hreint og hollt, fá góða næringu og drekka nóg af vatni. Heilbrigðar hægðir eru rosalega mikilvægar fyrir góðan grindarbotn - þá skal sérstaklega reyna að komast hjá hægðatregðu þar sem hún setur aukið álag á grindarbotninn.
Einföld æfing til að losa um streitu í líkamanum er að leggjast niður í afslöppuðu umhverfi þar sem þú nærð að slaka á líkamanum og þér líður vel. Passaðu að það sé engin spenna í herðum eða handleggjum. Passaðu að hafa ekki spennu í fótleggjunum - leyfðu hnjánum að detta til hliðar ef þau leita þangað. Gott getur verið að hafa púða undir hnjánum til að ná betri slökun í mjóbak og mjaðmir.
Svo andarðu inn um nefið á 5 sekúndum og blæst frá á 10 sekúndum. Gott er að setja smá stút á munninn til að gera mótstöðu í fráblæstrinum.
Endurtaktu í 2-5 mín einu sinni á dag. Reyndu að draga hugann að því hvernig þér líður í líkamanum - hugsaðu um að taka alla streituna og settu hana í andardráttinn sem þú svo blæst frá þér.
Eftir viku ættir þú að vera búin að ná tökum á æfingunni og jafnvel finna mun á streitustiginu. Nú geturðu leitað í æfinguna í hvert skipti sem þú upplifir yfirþyrmandi aðstæður í daglegu lífi. Hvort sem það er þegar þú horfir á þvottafjallið eða upp kemur atvik í vinnunni.
© 2024 Móðurmáttur.